Auðbjörg B. Bjarnadóttir hjúkrunarstjóri á Kirkjubæjarklaustri sæmd fálkaorðunni

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 17. júní 2019, sæmdi forseti Íslands sextán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal var Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir ljósmóðir og hjúkrunarstjóri HSU á Kirkjubæjarklaustri.  Hún hlaut riddarakrossinn fyrir framlag til heilbrigðis- og björgunarstarfa í heimabyggð og er vel að því komin.

 

Auðbjörg hefur búið og starfað á Klaustri síðan 2007 og er það mikill fengur fyrir stofnunina að hafa fengið að njóta starfskrafta hennar þessi ár.  Hún er ávallt boðin og búin komi eitthvað uppá á hennar svæði og ákaflega ósérhlífin og kraftmikil.  Hún er oftast með þeim fyrstu á vettvang komi til alvarlegs slyss á hennar svæði og undanfarið hefur starfsfólk heilsugæslunnar á Klaustri ekki farið varhluta af því, þar hafa orðið nokkur stór og mjög alvarleg slys með stuttu millibili enda vinsælt ferðamannasvæði að heimsækja og umferðarálag mikið.

 

Auðbjörg er gift Bjarka Guðnasyni sjúkraflutningamanni og eiga þau þrjú börn, það er því í nógu að snúast hjá fjölskyldunni þegar bæði hjónin eru viðbragðsaðilar í ekki fjölmennara sveitarfélagi. 

 

Við á HSU óskum samstarfskonu okkar Auðbjörgu Brynju Bjarnadóttur, hjúkrunarstjóra á heilsugæslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri, innilega til hamingju með heiðurinn sem hún hefur verið sæmd með fálkaorðunni.