Átta hjúkrunarfræðingar frá HSU Selfossi hefja nám í bráðahjúkrun

Það er gleðilegt að geta sagt frá því að mikill áhugi hefur verið meðal hjúkrunarfræðinga á Bráða- og slysamóttöku HSU á Selfossi á nýju diplómanámi í bráðahjúkrun sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Alls hafa átta hjúkrunarfræðingar frá HSU Selfossi hafið diplómanám í bráðahjúkrun.

Þær eru: Aneta Tomczyk, Ásgerður Tinna Jónsdóttir, Birna Gestsdóttir, Ester Hafdís Ásbjörnsdóttir, Halla Arnfríður Grétarsdóttir, Jóna Sif Leifsdóttir, Margrét Þ. Kristinsdóttir og Sigrún Eydís Garðarsdóttir.

 

Tilgangur námsins er að veita hjúkrunarfræðingum tækifæri til að dýpka þekkingu og færni í hjúkrun bráðveikra og slasaðra sjúklinga innan sem utan heilbrigðisstofnana. Að námi loknu hafa nemendur öðlast sérhæfða þekkingu á einkennum, þörfum sjúklinga og aðstandenda, og viðbrögðum þeirra við bráðum veikindum og slysum, geta metið, forgangsraðað og endurmetið sjúklinga auk þess að þekkja til og veita viðeigandi meðferðir og meta árangur þeirra.

 

Færni í bráðahjúkrun byggir m.a. á staðgóðri þekkingu á:

  • lífeðlisfræðilegum viðbrögðum við bráðum veikindum og slysum
  • endurlífgun, bráðum meðferðum og viðbrögðum
  • sálfræðilegum áhrifum bráðra veikinda, áverka og slysa
  • félagslegum afleiðingum veikinda, slysa og sjúkrahúslegu
  • menningarbundnum þörfum skjólstæðinga
  • sjúkdóma- og áverkafræði
  • íslensku heilbrigðiskerfi, viðbragðsáætlunum og almannavörnum

Einnig verða skoðaðar nýjar rannsóknir, kenningar og meðferðir sem snúa að ofangreindum þáttum. Í bóklegum námskeiðum verður áhersla lögð á að kenna með dæmum úr raunveruleikanum,  þar sem nemendur glíma við úrlausnir og að tengja dagleg viðfangsefni við gagnreynda þekkingu. Námsleiðin eflir sjálfstæði í starfi bráðahjúkrunarfræðings og möguleika í áframhaldandi námi til meistaraprófs og sérfræðings í bráðahjúkrun.

 

Síðustu 5 ár hefur starfsemisaukning á Bráða- og slysamóttöku HSU á Selfossi numið 60%. Námið mun því sannarlega styðja við sívaxandi starfsemi HSU á sviði bráðaþjónustu og bæta færni og gæði við meðferð bráðveikra og slasaðra. Við óskum þeim öllum velfarnaðar í náminu.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.