Athugasemdir HSU vegna fréttaflutnings um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi

Í Fréttablaðinu í dag 18. janúar er viðtal við Anton Kára Halldórsson sveitarstjóra í Rangárþingi eystra m.a. um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi.

Framkvæmdastjórn HSU vísar á bug fullyrðingum sem fram koma í viðtalinu um samskiptaleysi við sveitarstjórn.  HSU hefur lagt áherslu á góð samskipti við sveitarstjórnir og mun ekki gera breytingu á þeirri stefnu. Vegna þessa er nauðsynlegt að rekja þau samskipti sem hafa átt sér stað um húsnæðismál sjúkraflutninga í Rangárþingi. Í viðtalinu eru einnig fjölmargar staðreyndavillur sem rétt er að leiðrétta.

Í tölvupósti framkvæmdastjóra fjármála HSU til sveitarstjórans 27. júní sl. segir m.a.:

 „Eins og þú veist þá er núverandi húsnæði sjúkrabíla í húsnæði RKÍ slæmt, þ.e. raki í því og svo er aðstaða fyrir sjúkraflutningamenn ófullnægjandi, bæði varðandi hreinlætismál og svefnaðstöðu að ekki sé talað um öryggismál, eldvarnir o.fl. Eins og ég nefndi við þig í stuttu símtali fyrir kosningarnar þá höfum við áhuga á að byggja bílskúr við heilsugæsluna. Á meðan þurfum við að finna aðrar lausnir því núverandi húsnæði, óbreytt, kemur ekki til með að duga öllu lengur. Þrátt fyrir að hægt væri að laga húsnæðið mun það ekki uppfylla öryggiskröfur þar sem menn nánast sofa í bílskúrnum. Ég hef rætt við Ágúst á Hellu [sveitarstjóri Rangárþings ytra] um möguleika að færa sjúkrabílana yfir á Hellu tímabundið þar sem við eigum húsnæði fyrir starfsmenn en þá vantar bílskúr. Þannig að lausn liggur ekki fyrir en við erum að skoða alla kosti.“

  1. águst sl. sendir framkvæmdastjóri fjármála HSU eftirfarandi til sveitarstjóra Rangárþings eystra:

Í framhaldi af samtali okkar fyrr í sumar um aðstöðu fyrir sjúkrabíla þá höfum við tekið þá tímabundnu ákvörðun að færa sjúkrabíl frá Hvolsvelli yfir á Hellu. Ástæðan er sú að núverandi húsnæði sjúkrabíla er ekki í góðu ástandi og uppfyllir m.a. ekki kröfur um aðstöðu fyrir starfsmenn. Húsnæðið var alltaf hugsað til bráðabirgða en það er ekki unnt að búa við núverandi aðstöðu lengur. Flutningur verður í haust en dagsetning liggur ekki fyrir. Við munum færa einn sjúkrabíl yfir í slökkvistöðina á Hellu og aðstaða fyrir sjúkraflutningamenn verður í húsnæði HSU á móti slökkvistöðinni (Þrúðvangur 22). Enn er óvíst hvar varabíllinn verður staðsettur. Við höfum ekki tekið ákvörðun um framtíðarstaðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi. Mun halda þér upplýstum um þróun mála.“

Fundur var haldinn með fulltrúum sveitarstjórnar Rangárþings eystra 1. nóvember sl. þar sem þetta mál var m.a. rætt. Einnig var rætt þar um mögulega breytingu á vaktafyrirkomulagi en á þeim tímapunkti lá ákvörðun ekki fyrir.

Annar fundur var svo haldinn með sveitarstjórninni 14. janúar sl. þar sem forsjóri HSU endurtók að flutningur á sjúkrabíl yfir á Hellu væri tímabundin ráðstöfun. Niðurstaða fundarins var sú að næstu skref um framtíðarhúsnæði sjúkraflutninga í Rangárþingi yrði unnið með öllum sveitastjórnum, eins og til hefur staðið.  Viðbrögð sveitastjórans nú koma því framkvæmdastjórn í opna skjöldu.

Á árinu 2018 fékkst viðbótarfjárveiting að fjárhæð 60 millj. kr. vegna sjúkraflutninga í Rangárþingi. Sú fjárhæð var nýtt til fulls og liðlega það. Fjárframlög árið 2019  eru ekki sérmerkt starfsstöðvum heldur eru þau til sjúkraflutninga í öllu umdæminu og verkefni HSU er að nýta það fé með skynsömum hætti.

Það er röng framsetning að segja að verið sé að draga úr þjónustu sjúkrabíla í Rangárþingi. Hið rétta er að fyrir liðlega ári síðan tók HSU einhliða þá ákvörðun að stórbæta þjónustuna með því að hafa staðbundna vakt sjúkraflutningamanna í Rangárþingi allan sólarhringinn til reynslu en fram að þeim tíma voru sjúkraflutningamenn á bakvöktum eins og víðast er á landsbyggðinni. Sveitarstjórn Rangárþings eystra hafði ekkert frumkvæði eða aðkomu að þeirri ákvörðun að efla sjúkraflutninga á svæðinu.

Nú þegar tími var kominn á endurskoðun fyrirkomulagsins er það niðurstaða að staðbundin vakt verður á tímabilinu kl. 07-19 en bakvakt kl. 19-07 alla daga. Bakvaktir sjúkraflutninga verða mannaðar með reyndum sjúkraflutningamönnum sem hlotið hafa þjálfun og reynslu á Suðurlandi og eru a.m.k. með neyðarflutningsréttindi eða eru að ljúka því námi. Læknir er á vakt allan sólarhringinn og fer í öll bráðaútköll í Rangárþingi, ýmist frá Hvolsvelli eða Hellu.

Þá er rétt að taka fram að tveir sjúkrabílar eru í Rangárþingi, annar á Hellu og varabíllinn er á Hvolsvelli. Fullyrðingar sveitarstjórans um að stuðningur við sjúkraflutninga í Vík og á Kirkjubæjarklaustri minnki við þennan tímabundna flutning er rangur því um 5-6 mín. akstur er milli Hellu og Hvolsvallar í forgangsakstri. Munur á tíma að aka austur í Vík eða á Kirkjubæjarklaustur frá Hellu eða Hvolsvelli er því hverfandi.

Stærstan hluta sólarhringsins er útkallstími sjúkrabíla í Rangárþingi eins og best verður og er þá höfuðborgarsvæðið meðtalið í þeim samanburði. Þegar sjúkraflutningamenn eru á bakvakt er útkallstíminn einnig með því besta sem gerist á þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni og í dreifbýli. Þá er stutt í aðstoð frá sjúkraflutningingamönnum á Selfossi.

Framkvæmdastjórn HSU harmar villandi og beinlínis rangan málflutning sveitarstjóra Rangárþings eystra og bendir á að ákvörðun um staðsetningu sjúkrabíla í Rangárþingi til framtíðar verður tekin á faglegum forsendum út frá hagsmunum svæðisins í heild sinni.

 

 

Með virðingu og vinsemd, 

Framkvæmdastjórn HSU