Ás í Hveragerði semur við HSU um aðgang að Sögukerfinu

Fulltrúar HSU og Dvalarheimilisins Áss

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Dvalarheimilið Ás í Hveragerði hafa gert með sér samning um samtengingu við sjúkraskrárkerfið Sögu hjá HSU.  Heilbrigðistarfsmenn á Ási fá þar með aðgang að rafrænni sjúkraskrá fyrir skjólstæðinga sína í tölvukerfi HSU. Með samningnum fær Ás aðgang að sjúkraskrárkerfi heilbrigðisumdæmis Suðurlands.  Það mun spara tíma, eykur yfirsýn yfir líðan heimilismanna, gerir hjúkrunarmeðferðina markvissari og skráningu heilbrigðisgagna öruggari og ítarlegri. Gögnin verða aðgengilegri sem auðveldar upplýsingaflæðið á milli stofnana. Með samningi þessum eykst gagnaöryggi ásamt því að skráning verður samræmd og skilvirkari bæði íbúum hjúkrunarheimilisins og fagfólki til hagsbóta.

 

Heilbrigðisstofnun Suðurlands óskar Dvalaheimilinu Ási innilega til hamingju með samninginn.

 

Gott samstarf er milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og dvalar- og hjúkrunarheimila á þjónustusvæði HSU. Að auki má geta þess að í yfirstandandi breytingum og lokun á eldhúsi HSU á Selfossi hefur verið gengið til samninga við Ás, sem mun hlaupa undir bagga með mat fyrir sjúklinga HSU.