Andleg vanlíðan á meðgöngu og eftir fæðingu

Arndís MogensenMeðganga og fæðing barns er í flestum tilfellum gleðilegur atburður en hluti barnshafandi kvenna og nýbakaðra mæðra upplifir einnig erfiðar tilfinningar á þessu tímamótum í lífinu. Talið er að um 10-15% kvenna upplifi andlega vanlíðan á þessum tíma en orsakir þessara einkenna eru ekki að fullu þekktar. Vitað er að áföll sem konur hafa orðið fyrir áður, kvíði á meðgöngu, lágt sjálfstraust, skortur á félagslegum stuðningi og streita við barnauppeldi auka líkurnar.

Talið er að allt að 40-80% kvenna upplifi sængurkvennagrát eftir fæðingu sem nær yfirleitt hámarki á um 5. degi eftir barnsburð. Sængurkvennagrátur lýsir sér oftast í vægri depurð, pirringi, gráti, geðsveiflum og ofurviðkvæmni í samskiptum við aðra. Einkennin sem hér er lýst eru þó mismikil hjá konum.  Í langflestum tilvikum gengur sængurkvennagrátur yfir á 1-2 vikum en geri hann það ekki getur verið um fæðingarþunglyndi að ræða og í þeim tilvikum er mjög mikilvægt að leitað sé aðstoðar fagfólks.

Það getur verið mjög erfitt að tjá sig um vanlíðan á meðgöngu og eftir fæðingu þar sem konur upplifa sig margar einar um að finna fyrir þessum tilfinningum. Samviskubit og sektarkennd hrjáir einnig sumar kvenanna og gerir þeim erfiðara um vik að tjá sig um líðan.

Mikilvægt er að barnshafandi konur, nýbakaðar mæður og stuðningsaðilar þeirra þekki einkenni meðgöngu- og fæðingarþunglyndis og ræði þau fljótt geri þau vart við sig. Hægt er að ræða við ljósmóður í mæðravernd, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður í ungbarnavernd og heimilislækna fari konur að upplifa vanlíðan á þessum tíma og mikilvægt er að þær leiti sér stuðnings og hjálpar sem fyrst þar sem líðanin getur versnað sé það ekki gert.

 

Heimildir: www.heilsugaeslan.is

Linda Bára Lýðsdóttir, Halldóra Ólafsdóttir og Jón Friðrik Sigurðsson. (2008).

Fæðingarþunglyndi: Algengi, afleiðingar og helstu áhættuþættir.

Sálfræðiritið, 13, 171-185.

Thome, M. (1998). Þunglyndiseinkenni og foreldrastreita hjá íslenskum

mæðrum með óvær ungbörn. Læknablaðið, 84, 838 – 844.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Arndís Mogensen, ljósmóðir HSU á Selfossi