Ályktun stjórnar Suðurlandsdeildar SLFÍ vegna niðurskurðar á HSu

Stjórn Suðurlandsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem boðaður er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands fyrir árið 2012.  Búið er að spara og hagræða eins og kostur er.  Stjórnendur og starfsfólk stofnunarinnar hafa lagt sig fram um að framfylgja fyrri niðurskurðarkröfum, meira er ekki hægt án þess að skerða þjónustuna,  loka deildum og segja upp starfsfólki!

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er mjög mikilvæg fyrir íbúana, hún sér um grunnþjónustu við heimamenn og sinnir einnig öryggisþjónustu við gríðarlegan fjölda sumarhúsaeigenda á Suðurlandi. 

Stjórn Suðurlandsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands skorar á Velferðarráðherra, Landlæknisembættið, alþingismenn og sveitarstjórnarmenn að beita sér fyrir því að fyrirhugaður niðurskurður verði dreginn til baka án tafar.

 

Fyrir hönd stjórnar Suðurlandsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands

Margrét Auður Óskarsdóttir formaður