Ályktun stjórnar læknaráðs 28. sept. 2011

Ályktun stjórnar læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, 28. september 2011

Stjórn Læknaráðs HSu mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 2012 og varar við hugsanlegum afleiðingum slíkra framkvæmda á starfsemi og mönnum heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

                                   Greinargerð:

Læknaráð HSu hefur kynnt sér kröfur Velferðarráðuneytisins um niðurskurð á fjárframlögum til HSu fyrir starfsárið 2012. Þetta er áætlað nema 70 milljónum króna á ársgrundvelli  sé tekið tillit til frestunar á sparnaðaraðgerðum sem framkvæma átti 2010.

Vert er að benda á að umtalsverður sparnaður hefur þegar hlotist af hagræðingu verkferla og endurskoðun á starfsemi HSu. Hins vegar eru komin fram alvarleg áhrif af niðurskurði svo sem  brotthvarf sérfræðilækna frá stofnuninni og skortur á læknum til starfa. Þannig eru ómönnuð  nokkur stöðugildi heilsugæslulækna og staða lyflæknis aðeins mönnuð tímabundið í stað fast og engin viðbrögð eru við auglýsingum um lausar stöður. Eftir stendur fámennari hópur lækna sem finnur fyrir vaxandi álagi og má ekkert út af bregða til að fleiri hverfi úr starfi.

Samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins á að hlífa grunnþjónustu og heilsugæslu en ljóst er að frekari skerðing fjárframlaga mun leiða til þess að draga verður úr eða hætta grunnþjónustu. Sé slíkt vilji stjórnvalda þarf ákvörðun um slíka skerðingu þjónustunnar að vera ákveðin miðlægt af hálfu stjórnvalda til að misræmi verði ekki milli landshluta og allir sitji við sama borð. Ábyrgð slíks samdráttar hvílir á stjórnvöldum því heimamenn vilja fá lögboðna þjónustu fyrir sig og sína skjólstæðinga.

Sérstaða Suðurlands hefur margoft sýnt sig þar sem náttúruhamfarir eins og eldgos og jarðskjálftar hafa átt sér stað og vofa yfir. Fjallvegurinn um Hellisheiði lokast reglulega yfir vetrartímann og stórslys gerast á hinum fjölmennu og fjölförnu svæðum. Ferðamenn streyma um þetta stóra svæði og vegalengdir eru miklar og allt kallar þetta á vel skipulagða, vel þjálfaða og góða heilbrigðisþjónustu.

Byggingar og tæki munu úreldast en slíkt er hægt að endurnýja þegar betur árar. Alvarlegast fyrir starfsemi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er ef  mannafli með sérhæfða kunnáttu og/eða langa reynslu hverfur á braut. Blóð, svita og tár hefur þurft til að fá slíkt fagfólk til starfa og  hætt er við að marga ára markviss uppbygging verði að engu gerð með óbilgjörnum kröfum stjórnvalda.   

Áfram verður þörf fyrir alla þá þjónustu sem veitt er á Suðurlandi en framkvæmd hennar mun þá flytjast burt og íbúar þessa svæðis sem telur yfir 20.000 manns munu þurfa að sækja hana annað. Slíkt getur ekki verið tilgangur stjórnvalda, tilgangurinn hlýtur að vera að veita þjónustu á sem skilvirkastan og ódýrasta hátt. Því er orðið mál að hætta frekari niðurskurði áður en í meira óefni er komið.

Þórir B Kolbeinsson formaður                                  

Arnar Þór Guðmundsson varaformaður