Ályktun Læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna niðurskurðar á fjárframlögum til HSu á fjárlögum fyrir árið 2011.

Læknaráð HSu mótmælir fyrirhuguðum stórfelldum niðurskurði til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á fjárlagatillögum 2011, en boðað hefur verið að fjárframlög til sjúkrasviðs HSu muni lækka um 412 milljónir króna á næsta ári.


Rekstrarkostnaður sjúkraviðs HSu árið 2010 er ætlaður um 900 milljónir króna og er hlutfall kostnaðar af rekstri sjúkrasviðsins sjálfs vegna legudeilda, skurðstofu og fæðinga rösklega 400 milljónir króna á ársgrundvelli. Afgangur upphæðarinnar fer í rekstur ýmissa stoðdeilda t.d. myndgreiningar og rannsóknarstofu sem af sögulegum ástæðum eru flokkaðar með sjúkrasviði þó megnið af starfsemi þeirra snúi að þjónustu við heilsugæslu.

Mikil hagræðing hefur átt sér stað á rekstri þessara stoðdeilda og í dag er rekstur þessara stoðdeilda mun hagkvæmari en kaup á þessari þjónustu utan frá. Ekki að vænta að hægt sé að draga úr kostnaði við rekstur þeirra svo nokkru nemi og ljóst að umræddur niðurskurður næst einungis með því að draga saman rekstur legudeildar, fæðingarþjónustu og skurðstofu. Rekstur þessarar þjónustu nemur nærri þeirri upphæð sem rætt er um að spara eða um 400 milljónum og er því um nærri 57% niðurskurð á rekstrarframlagi sjúkrasviðs að ræða. Forsendur og hagkvæmni ofangreindra stoðdeilda er líklegt að breytist með auknum tilkostnaði ef ofangreindar sparnaðaráætlanir ganga eftir, svo ekki sé minnst á skerðingu stoðhlutverks þeirra við heilsugæsluna.

Það er álit læknaráðs að ofangreind grundvallarbreyting á starfsemi stofnunarinnar muni stórskaða stofnunina í heild og draga verulega úr þeirri þjónustu sem hægt verður að veita skjólstæðingum hennar sem eru um 20 þúsund manns.


Læknaráð bendir á að verði legurýmum lokað munu læknar sem nú starfa á sjúkrasviði hverfa til annarra starfa og sú þjónusta sem þeir hafa veitt hingað til jafnt á legudeild sem á göngudeild mun hætta. Þetta eru skurðlæknir, hjartasérfræðingur, meltingarsérfræðingur, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir og svæfingarlæknir. Þjónustugjöld vegna útseldrar þjónustu starfsfólks hefur verið um 27 milljónir kr/ári og munu hverfa, leggist þessi þjónusta af.


Skurðstofuaðstaða er nauðsynleg forsenda ýmiss konar göngudeildarþjónustu svo sem speglana á meltingarvegi, starfsemi háls- nef og eyrnalæknis, kvensjúkdómalæknis og ýmis konar smærri aðgerða sem sérgreinalæknar geta boðið upp á og hafa staðið til boða á Selfossi. Fækkun lækna og lokun leguplássa gerir heilsugæslulæknum erfiðara fyrir í starfi þar sem þeir njóta skerts stuðnings og þjónustu sérgreinalækna og þess möguleika sem sjúkrahúsvistun í nærbyggð veitir fyrir skjólstæðinga. Efling bráðamóttöku mun ekki koma í stað núverandi aðstöðu. Bæði vantar þá stuðning sérgreinalæknisþjónustu og eins legupláss fyrir sjúklinga sem hægt er að meðhöndla á staðnum þó um skammtíma innlögn sé að ræða. Allt mun þurfa að senda áfram til Reykjavíkur og þá lítill hagur af bráðamóttökunni.


Ofangreindar fjárlagatillögur virðast því lítt úthugsuð árás á þá heilbrigðisþjónustu sem stunduð hefur verið í dreifbýli á Íslandi hingað til og því miður engar faglegar forsendur settar fram um hvaða fyrirkomulag á að taka við. Ljóst er, að ekki verður hætt að veita skjólstæðingum þessa þjónustu, mun hún einfaldlega flytjast annað og íbúar í dreifbýli þurfa að sækja þjónustu annað en í heimahérað.Mikil fjárfesting í húsnæði, tækjabúnaði og þjálfun fagfólks mun glatast. Ekki er ljóst hvort til stendur að byggja upp þessa þjónustu aftur þegar betur árar en eðlilegt væri að hyggja að slíkri framtíðarskipulagningu áður en ráðist er í svo umfangsmikinn niðurskurð og kerfisbreytingar. Fullyrt er að tillögurnar leiði til sparnaðar en erfitt er að sjá hver hinn raunverulegi sparnaður verður fyrir heilbrigðiskerfið. Slík kerfisbreyting mun hins vegar óhjákvæmilega leiða til stórfellds atvinnumissis heimafólks og trúlega brottflutnings þess.


Fyrirhugaður sparnaður mun því reynast Sunnlendingum dýr, bæði skjólstæðingum og starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, þegar til lengri tíma er litið. Læknaráð telur fulla ástæðu fyrir stjórnvöld að staldra hér við og huga frekar að því hvernig ná megi samkomulagi og samstöðu með heimamönnum um hvernig fjárveitingum til heilbrigðismála í dreifbýli verði best varið svo að tryggja megi sem besta heilbrigðisþjónustu fyrir Sunnlendinga og aðra landsmenn á þessum erfiðu samdráttartímum.


Selfossi, 5. október 2010


Fyrir hönd stjórnar Læknaráðs


Þórir Kolbeinsson


Yfirlæknir Hellu


GSM 8627880