Ályktun Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu

Stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu mótmælir harðlega þeirri skerðingu á fjárveitingu til stofnunarinnar sem boðuð er 2012.  Þegar hefur verið sparað og hagrætt sem auðið er, og ferkari skerðing mun koma niður á þeirri grunnþjónustu sem veita ber í heimabyggð.

Suðurland er víðfeðmt hérað og fjölmennt, bæði á veturna þegar allra veðra er von og yfir fjallveg að fara til Reykjavíkur, og ekki síður á sumrin þegar íbúar15000 sumarhúsa frá Klaustri vestur í Þorlákshöfn bætast við íbúafjöldann. Eldfjöll og jökulár minna hvað eftir annað á harðbýli landsins og trufla samgöngur.

Sunnlendingar fæðast, veikjast og meiðast eins og aðrir landsmenn, þeir þurfa þjónustu og fá hana eins og aðrir, og hún kostar óhjákvæmilega fjármagn.  Réttlát skipting þess á landsvísu er öllum í hag, að draga allt fjármagn og alla þjónustu til höfuðborgarinnar gerir engum gagn, hvorki höfuðborgarbúum né öðrum. 

Í ársbyrjun 2011 urðu breytingar á starfsemi Hsu vegna niðurskurðar.   Á öllum deildum og heilsugæslustöðvum var hagrætt verulega, vöktum breytt og dregið úr notkun hjúkrunarvara að svo miklu leiti sem unnt er.

            Á hand- og lyflækningadeild var sjúkrarúmum fækkað um nærri helming virka daga og eru enn færri um helgar, auk þess sem hjúkrunarfræðingar þaðan manna nýstofnaða bráðamóttökudeild allan sólarhringinn.  Sjúklingar sem  senda má frá LSH til að fá hjúkrun til dæmis eftir stórar aðgerðir eða lyfjameðferð af ýmsu tagi hafa því minni möguleika á að komast að á HSu en áður.  Sjúkralega þessa hóps fer fram einhvers staðar og kostnaðurinn hverfur ekki.  Færri sjúkrarúm á einum stað þýðir ekkert annað en færri sjúkrarúm á landsvísu, einnig fleiri sjúkraflutninga á LSH með sjúklinga sem áður var hægt að sinna hér sem er aukakostnaður.

Dauðvona sjúklingar þiggja líknandi meðferð í heimabyggð ef þess er nokkur kostur, og má sérstaklega benda á umstang og aukakostnað aðstandenda ef sú þjónusta væri ekki í boði hér.     Á Suðurlandi er ekki í boði heimahjúkrun allan sólarhringinn á heilsugæslu-stöðvum vítt og breitt um héraðið, sem gerir möguleika á sólarhringslegu enn nauðsynlegri. 

Á  fæðingardeildinni náðist mikil hagræðing með því að samþætta heilsugæsluþátt meðgönguferlisins við fæðingar- og göngudeildarþjónustuna sem ætíð hefur verið til staðar.  Árið áður hafði orðið enn meiri breyting þegar vaktir lækna voru lagðar af, þannig að aðeins er hægt að sinna eðlilegum sjálfkrafa fæðingum. Traust samstarf ljósmæðra á HSu er við fæðingardeild LSH. 

Sængurlega er í boði fyrir konur sem búa svo langt frá að þær eiga ekki kost á vitjunum ljósmæðra  fyrstu viku eftir fæðingu, auk þess sinna  ljósmæður margvíslegum vandamálum sem komið geta upp í barneignarferlinu, og ýmist leysa þau eða vísa til annars sérhæfðs heilbrigðisstarfsmanns.

Hjúkrunar- og ljósmæðraráð áréttar að ekki sé hægt að spara meira á HSu án þess að það komi niður á sjálfsagðri grundvallarþjónustu við Sunnlendinga.

 F.h. Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sigríður Pálsdóttir, formaður.