Alvarlega staða í kjaradeildu ljósmæðra og ríkis

Skipulag þjónustu ljósmæðra á HSU vegna yfirvinnubanns

 

 

17. júlí 2018

 

 

Yfirstandandi kjaradeila ljósmæðra og ríkis er alvarlegt áhyggjuefni meðal stjórnenda á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það er ljóst að yfirvofandi yfirvinnubann Ljósmæðrafélag Íslands (LMFÍ) mun skapa óvissu og óöryggi í samfélaginu í tengslum við viðkvæma og afar mikilvæga þjónustu sem ljósmæður sinna í heilbrigðiskerfinu. Við á HSU höfum gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja mönnun ljósmæðra og skipulag fæðingaþjónustu á Selfossi og í Vestmannaeyjum ef til yfirvinnubanns kemur.

 

Mönnun á ljósmæðravakt HSU Selfossi er með þeim hætti að á morgunvakt eru tvær ljósmæður alla virka daga. Allar aðrar vaktir þar eru mannaðar með einni ljósmóður. Mönnun á ljósmæðravakt HSU í Vestmannaeyjum er með þeim hætti að ein ljósmóðir er á dagvakt og á bakvakt á kvöldin og nóttinni. Mönnun í sumar er þannig að yfirvinnubann mun ekki hafa áhrif nema til komi forföll á vakt. Ef upp kemur sú staða að það vanti ljósmóður á vakt hjá HSU vegna forfalla verður sótt um undanþágu til LMFÍ.  Þjónusta ljósmæðra á HSU verður því tryggð.

 

Í aðdraganda kjaradeilunnar hefur ein ljósmóðir sagt starfi sínu lausu hjá HSU. Við lýsum yfir áhyggjum af því graf alveralega ástandi sem komið er upp í því þjónustuhlutverki sem Landspítali gengnir fyrir fæðingarþjónustu á landsvísu, með uppsögnum fjölmargra ljósmæðra þar. Víða hjá opinberum heilbrigðisstofnun er sár vöntun á fagfólki sem hefur bein áhrif á þjónustustig, gæði og uppbyggingu þjónustunnar á sama tíma og við glímum við áskoranir vegna fjölgunar íbúa, ferðamanna og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Stöðugleiki í mönnun er ein megin forsenda uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og áríðandi er að langvinnar kjaradeildur valdi ekki skaða með brottfalli úr mikilvægum störfum. Við eigum því  láni að fagna að hjá HSU er nánast full mönnun stöðugilda innan  allra heilbrigðisstétta. Það ástand er þó ekki sjálfgefið og mönnun starfa í heilbrigðisþjónustunni er í eðli sínu viðkvæm.  Við munum leggja okkar að mörkum við að tryggja samstarf um fæðingarþjónustu meðan þessi kjaradeila ljósmæðra og ríkis stendur yfir, sem og endranær. 

 

Geysilega mikið er í húfi og viljum við leggja áherslu á nauðsyn þessa að báðir aðilar sem eiga aðild að kjaradeilunni setji metnað og kraft í að ganga til samninga. Þess er skemmst að minnast að kjaradeilur frá 2015 hafa haft slæm langtíma áhrif víða innan heilbrigðiskerfisins m.a. með áþreifanlegum atgervisflótta einkum meðal kvennastétta. Skortur á mönnun hefur þegar haft útbreidd áhrif innan heilbrigðisþjónustunnar. Það er öruggt að langvinnar kjaradeilur valda skaða til lengri tíma og hafa alltaf í för með sér aukinn kostnað, munu seinka framþróun og soga til sín umfram orku sem þarf til að byggja upp traust og starfsemi að nýju.  Það er því áríðandi að allir aðilar sameinist um gegnsæja og raunhæfa launsetningu út frá verðmætamati menntunar, starfa og verkefna í heilbrigðisþjónustu. Nýja nálgun þarf meðal allra hagsmunaaðila til að tryggja mönnun í heilbrigðisþjónustu.

 

 

Anna María Snorradóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar HSU.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.