Alþjóðlegur dagur hjúkrunar

12. maí 2017

Kæru hjúkrunarfræðingar og kollegar og samstarfsfólk.

Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju  með daginn.  Við hjúkrunarfræðingar höldum árlega upp á dag formóður hjúkrunar, Florence Nightengale sem fæddist þennan dag árið 1820.  Hún var mikill frumkvöðull á sínu sviði og vann að framgangi hjúkrunar við oft mjög erfiðar aðstæður.  Um leið sá hún tækifæri til framfara en var um leið frábær vísindamaður.  Hún kom auga á hvernig mætti draga úr mannlegri neyð og hlúa að hinum veiku, sáru og slösuðu, en gætti þessvum leið að skrá og mæla til að geta haldið utan um árangur af starfi sínu. 

Enn í dag vinnum við hjúkrunarfræðingar í aðstæðum þar sem við mætum manneskjum á öllum skeiðum lífsins í gleði og sorg og það eru sönn forréttindi. Á stofnun eins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands reynir á bæði fjölhæfni og sérhæfingu hjúkrunarfræðinga.  Hér hafa hjúkrunarfræðingar þróað störf sín eftir þörfum þeirra sem til okkar leita, hvort sem það er í heilsugæslu eða á göngudeildum, á sjúkra-, bráða eða hjúkrunardeildum HSU.

Ljóst er að forgangsverkefnin í heilbrigðisþjónustunni fram undan snúast áfram um aukna samhæfingu og bætt skipulag. Við leggjum áherslu á að nýta þá fjármuni sem veitt er í heilbrigðiskerfið þannig að þjónustan verði skilvirk, örugg, rétt tímasett og sjúklingamiðuð með sem minnstum tilkostnaði fyrir samfélagið, sjúklinga og aðstandendur þeirra. Hjúkrunarfræðingar ásamt öðrum heilbrigðisstafsmönnum eru í lykilhlutverki við samþættingu þjónustu.  Við á HSU viljum leggja enn meiri áherslu á nánari samvinnu heilbrigðisstétta þar sem við nýtum þekkingu og hæfni allra enn betur til að veita íbúum Suðurlands sem besta og réttasta úrlausn á þeim erindum sem þeir leita til okkar með.

Því langar mig sérstaklega á þessum degi að draga fram, að öllum öðrum ólöstuðum að , hjúkrunarfræðingar hafa í áratugi gegnt aðalhlutverki í samhæfingu umönnunar sjúklinga með því að skipuleggja og veita hjúkrun á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, heilsugæslustöðvum og víðar. Hjúkrunarfræðingar sinna forvörnum ásamt því að hafa faglega færni til að sinna eftirfylgni, mati og meðhöndlun einkenna langveikra sjúklinga. Með tilfærslu verkefna innan heilbrigðiskerfisins er hægt að ná enn meiri árangri í að veita samfellda og fjölskyldumiðaða meðferð.

Við á HSU viljum veita þeim sem til okkar leita faglega þjónustu sem byggð er á samvinnu allra aðila.

Góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.