Almenn sjúkrahús – sérhæfð sjúkrahús

Um land allt er rekin almenn læknisþjónusta. Læknisþjónustan er staðsett sem næst þeim stað sem hennar er þörf og oftast sinnt af þar til sérmenntuðum heilsugæslulæknum.   Þetta gildir bæði um höfuðborgarsvæðið og dreifbýlið.   Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur verið rekin á þann hátt að sem mest af þjónustunni sé rekin á þeim stað sem hennar er mest þörf og af aðilum sem hafa þekkingu til verks.  Það er því afar mikilvægt að vandað sé til allra þátta heilbrigðisþjónustu og jafnvægi ríki milli stétta og staða.  Það er því mikilvægt að hafa sjúkrahús á landsbyggðinni til að tryggja að þeir sjúklingar sem ekki þurfa sérhæfða þjónustu Landsspítala en þurfi engu að síður aðstoð geti fengið hana sem næst heimabyggð. Á sama hátt er mikilvægt að þegar á reynir og þörf er á sérhæfðri þjónustu Landspítala geti hann veitt þá þjónustu.  Við sem störfum við heilbrigðiskerfið þurfum því að finna jafnvægið sem á að vera þarna á milli og geta leiðbeint þeim stjórnmálamönnum sem taka ákvarðanir um framtíð mismunandi þátta heilbrigðiskerfisins.  Við slíkar ákvarðanir þarf að taka tillit til hlutverka almennra sjúkrahúsa og sérhæfðra sjúkrahúsa og staðsetningu mismunandi þátta og allt með það í huga að tryggja öryggi sjúklinga og nýta fjármuni ríkisins sem best.  Við áframhaldandi aðhald ríkisstofnana mun án efa koma upp sú spurning hvaða þjónustu á að hætta með á hverjum stað og er sú þjónusta óþörf ? Ef ekki mun hún verða flutt til og þá oft með óþægindum og kostnaði fyrir ríki og einstaklinga. Flestar stofnanir hafa dregið saman útgjöld það mikið að ekki verður lengra gengið nema með því að hætta einhverri starfsemi.

Á Heilbrigðisstofnun Suðurlands er veitt grunnheilbrigðisþjónusta en það felur í sér heilsugæsla, hjúkrun aldraðra, almenn sjúkrahúsþjónusta, almennar lyflækningar, slysa og bráðaþjónusta og fæðingarþjónusta.  Stofnunin veitir ekki sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Skurðstofa er opin á dagvinnutíma og eingöngu gerðar þær aðgerðir sem ekki krefjast að sjúklingur leggist inn og því eru þetta aðgerðir sem annars yrðu gerðar á einkaskurðstofum höfuðborgarsvæðisins ef ekki hér.  Allri þessari þjónustu er stofnuninni skylt að veita samkvæmt lögum. Búið er að breyta starfseminni og lækka útgjöld um 22% á  árunum frá hruni og er  starfsemin því minni en áður. Sem dæmi má nefna að vaktalínum lækna hefur fækkað úr 13 í 8 og ekki gerlegt að komast lengra þar frekar en í öðrum þáttum þjónustunnar.

Ég er  ekki með lausn en bendi á hve mikilvægir allir þættir þjónustunnar eru og að nauðsynlegt er að endurskoða kerfið ef ganga á lengra í hagræðingu. Er hægt að hætta að hagræða í heilbrigðisþjónustu ?  Er einhver annar sem getur hagrætt meira án þess að það bitni á heilsunni ? Hvaða heilbrigðisþjónusta er óþörf ?  Eru læknar óþarfir ?  Getum við leyft okkur að fólkið okkar flytji úr landi og þjónustan sé ekki til ?   Gleymum því ekki að sá sjúki á bara eina ósk en sá fríski margar.

Höfundur er Framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.