Aldraðir íbúar á jarðskjálftasvæðinu fá aukna áfallahjálp.

Styrkur frá LCIF – Alþjóðahjálparsjóði Lions
Neyðaraðstoð vegna náttúruhamfara


Lionshreyfingin á Íslandi fékk í ágúst s.l. afhentan 10.000 US$ (810.000 kr.) neyðarstyrk “Emergency Grant” frá Alþjóðahjálparsjóði Lions LCIF, vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 28. maí 2008.

Markmið þessa tegundar styrkja er að veita fyrstu hjálp til fórnarlamba náttúruhamfara, s.s. fellibylja, skýstróka, jarðskjálfta, eldgosa og snjóflóða. Lionsumdæmi geta fengið allt að 10.000 US$ til að veita fyrstu hjálp á svæði, þar sem að minnsta kosti 100 fórnarlömb hafa orðið fyrir hörmungum. Styrkirnir takmarkast við fyrstu hjálp, þ.e. kaup á mat, vatni, teppum, lyfjum, fatnaði og hreinlætisvöru. Vegna mistaka og tafa við afhendingu styrksins til Íslands, var þessari fyrstu þörf þegar sinnt þegar styrkurinn barst, en fallist var á að áfallahjálp gæti rúmast innan þeirra þröngu marka sem eru skilgreind í forsendum neyðarstyrks.
Leitað var til Ólafs Arnar Haraldssonar, verkefnisstjóra þjónustumiðstöðvar vegna jarðskjálftanna, til að finna þarft verkefni sem Lionshreyfingin gæti styrkt. Ólafur Örn hafði samráð við sérfræðinga á svæðinu í áfallahjálp og eftirfylgd. Niðurstaðan var sú að veita öldruðum íbúum svæðisins áfallahjálp.


Íris Böðvarsdóttir sálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hefur umsjón með áfallahjálp sem fórnarlömbum jarðskjálftanna er veitt. Íris hefur góðfúslega tekið að sér að skipuleggja og hafa umsjón með þessu verkefni og fá til liðs við sig fleira fagfólk til að ljúka verkefninu.


Þjónustan veitist öldruðum á svæðinu, hvort sem er á elliheimilum eða einkaheimilum. Stefnt er að því að þessi áfallahjálp við aldraða hefjist sem fyrst. Unnin verður nánari útfærsla á verkefninu á næstu dögum,
en þar verður gerð áætlun um tiltekinn fjöldi tíma á ákveðnu tímabili. Lionshreyfingin leggur fram þetta fé, 810.000 krónur sem mun greiða allan kostnað við verkefnið. Kannað verður hvernig þetta fé nýtist sem best og í hvaða farveg greiðslur fara, í gegn um HSU, eða beint til verktaka og mun það koma fram í samningi sem nær yfir fjármögnun og þjónustu.


Í lok verkefnisins skili sálfræðingarnir stuttri skýrslu um verkefnið og árangur þess.