Áhrif gosösku á heilsufar

Nú hefur dregið úr öskumyndun í gosinu í Eyjafjallajökli.
Askan er nú grófari en inniheldur meiri flúor. Óljóst er hvort flúor hefur nokkur eituráhrif á menn.
Þórarinn Gíslason, lungnalæknir fór ásamt Þóri B. Kolbeinssyni, yfirlækni heilsugæslu Rangárþings, á öskusvæðið undir Eyjafjöllum og skoðuðu þeir nokkra einstaklinga. Nokkrir einstaklinganna sem voru með undirliggjandi lungnaþembu voru með meiri einkenni en venjulega af sínum lungnasjúkdómi en enginn þeirra var með alvarleg einkenni. Það er því ljóst að bráð eituráhrif af ösku eru óveruleg ef einhver.
Von er á fíngerðu svifryki yfir suðvesturhorn landsins á næstu dögum en ekki er von á sýnilegri ösku.
Einungis ef askan er sýnileg er ástæða til að hvetja einstaklinga með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma til að halda sig innivið og hugsanlega nota maska ef þeir þurfa að vera úti.
Heilbrigðum einstaklingum er einungis ráðlagt að vera með maska ef öskufall er verulegt.
Sóttvarnalæknir mun gefa út opinber tilmæli um notkun og dreifingu maska ef tilefni verður til slíks en ekki er ástæða til þess að svo stöddu.
Meðfylgjandi er fréttatilkynning sem send verður út í dag um notkun gríma.
Vinsamlega áframsendið allar leiðbeiningar til ykkar heilbrigðisstarfsmanna.