Áheitaganga til styrktar nýrri göngudeild lyflækninga á HSU

ÁheitagangaFyrirhugað er að opna göngudeild lyflækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands  (HSu) í október næstkomandi. Hugmyndin er að þarna verði sinnt flókinni lyfjagjöf, blóðgjöfum og annarri meðferð vegna krabbameina, gigtsjúkdóma og annarra erfiðra lyflæknisvandamála. Þá er fyrirhugað að þarna fari fram blóðskilun vegna langvinnrar nýrnabilunar og er þegar áformað að koma fyrir á göngudeildinni tveimur blóðskiljum. Blóðskilunin og krabbameinsmeðferðin fer fram í náinni samvinnu við sérfræðinga frá Landsspítala. Göngudeildin mun gjörbreyta aðstöðu til meðferðar alvarlegra lyflæknisvandamála við stofnunina hér og spara skjólstæðingum okkar ótaldar ferðir og eftirlit á Landsspítala. Svo skemmtilega vill til að stofnunin hér þ.e. sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður 10 ára í haust  sem haldið verður uppá með pompi og pragt. Stofnun göngudeildarinnar  á þessum tímamótum verður án efa stórt skref til framþróunar HSu og jákvæðrar umfjöllunar um stofnunina.

 

Til að auglýsa göngudeildina og afla fjár til tækjavæðingar hefur verið ákveðið að efna til áheitagöngu sem Björn Magnússon læknir og tengdasonur hans Hálfdán Steinþórsson standa fyrir.

 

Forsagan er sú að þeir Björn og Hálfdán skipulögðu tvær áheitagöngur á sínum tíma fyrir FSN, til styrktar og tækjavæðingar endurhæfingardeildar fyrir lífsstílshópa. Þeir gengu fyrri gönguna 2006 og þá síðari 2011 og gekk nokkuð vel að afla fjár fyrir deildina. Þeir lögðu af stað með þá hugmynd að vekja jafnframt áhuga á lífsstílsbreytingum og hreyfingu og höfðu því göngurnar viljandi mjög krefjandi. Gengið var frá Bárðardal yfir í Öskju, þaðan í Kárahnjúka og síðan til Reyðarfjarðar og þaðan yfir jökulinn eða íshettuna Fönn til Neskaupstaðar alls um 250km. Margir gengu með þeim síðasta spölinn eða dagleiðina en annars gengu þeir tveir þessa vegalengd í fyrri göngunni en fjórir gengu alla leið í seinni göngunni.

 

Áformað er að hafa sama háttinn á þessu nú þannig að þeir félagar búast við að verða tveir lengst af en að sjálfsögðu eru fleiri velkomnir til þátttöku og tilvalið að einhverjir gangi með þeim síðasta spottann. Áformað er að ganga frá Nýjadal, Bárðargötuna og þaðan niður með Langasjó , síðan yfir í Landmannalaugar  og eftir það Laugaveginn í Þórsmörk (líklega yfir 200 km). Markmiðið er að ljúka þessu á tæpri viku. 

 

Starfsmenn HSu ætla að gera sér glaðann dag í tilefni 10 ára sameiningarafmælis stofnunarinnar og fara í dagsferð í Þórsmörk, daginn sem þeir félagar áætla að enda gönguna.  Án efa verður tekið þar vel á móti þeim og þeim fagnað við göngulokin og vonandi sjá einhverjir af starfsmönnum HSu sér fært að ganga með þeim síðasta spölinn og mæta með þeim í Þórsmörk.

 

Kálfurinn „Hvíti Gautur“ verður táknmynd áheitagöngunnar en Guðbjörg Jónsdóttir ekkja Gauta Gunnarssonar bónda á Læk í Flóahreppi gaf hann til minningar um mann sinn og til styrktar aðstöðunni á fyrirhugaðri göngudeild.    

 

Þeir sem hafa hug á að styrkja áheitagönguna er bent á að greiða inná bankareikn: 0152-15-371096  kt. 511297-3039.