ÁFRAM ÖFLUGIR SJÚKRAFLUTNINGAR Á SUÐURLANDI

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) hefur séð um sjúkraflutninga í Árnessýslu á undanförnum árum, tók við þeim af Lögreglunni í Árnessýslu sem hafði umsjón með þeim áður. Strax þegar HSu tók við sjúkraflutningunum voru ráðnir til starfa 12 sjúkraflutningamenn og einn í fasta afleysingu. Þá var um að ræða verulega aukningu, því lögreglan hafði aðeins haft örfá stöðugildi til þessara verka.


Vaskur hópur sjúkraflutningamanna tók þá til starfa og er augljóst, að með þessari aukningu varð úr mjög öflugt lið sjúkraflutningamanna sem starfa inni á HSu sem heilbrigðisstarfsmenn. Þeirra þáttur í heilbrigðisþjónustu við íbúa á Suðurlandi er því mjög mikilvægur og falla þeir vel inn í starfandi teymi heilbrigðisstarfsmanna á Suðurlandi


 

Útkallafjöldi í Árnessýslu hefur aukist allverulega á undanförnum árum eða frá því að HSu tók yfir sjúkraflutningana. Í upphafi voru 2 mannaðir sjúkrabílar á dagvakt, 1 mannaður sjúkrabíll á nóttunni og annar var mannaður sjúkraflutningamönnum, sem sváfu heima hjá sér en komu í útkall eftir þörfum. Þess bera að geta að þeir eru staðsettir á sinni bakvakt í heimahúsi á Selfossi. Viðbragðstími seinni næturbílsins er því svipaður og viðbragðstími lækna, sem allir sofa heima hjá sér á vöktum.


Þetta þótti afbragðs fyrirkomulag en vegna aukinna flutninga á nóttunni var ákveðið að færa hinn bílinn í hús og var það gert 1. júní 2008 með tilheyrandi kostnaðaraukningu, þ.e.a.s. fjölgun á sjúkraflutningamönnum úr 12 í 16.


Í framhaldinu fækkaði síðan sjúkraflutningum aftur og þá varð eins og staðan er núna mjög lítið um útköll sjúkraflutninga á nóttunni. Því var sú ákvörðun tekin að fara aftur til sama horfs og talið var til fyrirmyndar og mjög gott í fyrra. Það eru því áfram alveg jafn margir sjúkraflutningamenn á vakt, en vaktin er aðeins öðruvísi en áður var. Mjög lítið er um útköll á nóttunni fyrir sjúkrabíla og því eru líkurnar á því að útköllin komi á sama tíma, og að bæði útköllin séu það mikilvæg að 2-3 mín. í lengdan útkallstíma skipti verulegu máli, afar ólíkleg.


Framkvæmdastjórn skoðaði málið með faglegum aðferðum og var það talinn mjög raunhæfur kostur að draga þannig saman kostnað við sjúkraflutninga um nálagt 15 milljónir króna á ársgrundvell. Sérstaklega var það talið eðlilegt með hliðsjón af öðrum breytingum í rekstri heilbrigðiskerfisins, sem hefur þurft að draga saman allverulega. HSu þurfti að draga saman yfir 130 milljónir á sl. ári, og 140 milljónir á þessu ári af aðeins 2ja milljarða króna rekstri.


Það er því ógerningur að einhver hluti starfseminnar sleppi við aðhaldsaðgerðir. Líta verður svo á að þarna sé öryggi íbúanna algert eftir sem áður þar sem jafnmargir eru á vakt eins og áður. Sjúkraflutningamenn hafa starfað innan HSu sem heilbrigðisstarfsmenn og hefur það verið draumur okkar að efla þá í starfi. Útgjaldaminnkun í sjúkraflutningum er því svipuð og í öðrum þáttum rekstursins.


Að sjálfsögðu er það mannlegi þátturinn sem er alltaf erfiðastur og í þetta skiptið er það að 4 heilbrigðisstarfsmenn og ríkisstarfsmenn missa vinnuna og það er hinn sorglegi þáttur í þessu, því þar fer forgörðum reynsla og þjálfun heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa staðið sig vel í starfi innan stofnunarinnar. Heilbrigðisstofnunin mun að sjálfsögðu gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að nýta þessa starfsmenn áfram sé þess kostur og möguleiki t.d. við afleysingar og eða störf losna þá mun að sjálfsögðu verða tekið tillit til reynslu þeirra hjá HSu.


Það er því ekki verið að fækka sjúkraflutningamönnum á vöktum heldur breyta vaktafyrirkomulaginu og útkallstími getur lengst um 2-3 mín.í ákveðnum tilvikum, en getur aldrei orðið lengri en útkallstími annarra heilbrigðisstarfsmanna sem koma að málinu. Hagræðing sem af þessu hlýst er allveruleg.


Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga/
sóttvarnalæknis í Suðurlandsumdæmi/
umsjónarlæknir sjúkraflutninga í Suðurumdæmi.