Æðahnútar

Hvað eru æðahnútar?
Æðahnútar í fótum eru mjög algengir, sérstaklega meðal kvenna. Bláæðakerfi fóta samanstendur af grunnum og djúpum bláæðakerfum sem tengjast saman með minni æðum. Í þessum æðakerfum eru æðalokur sem stjórna því að blóðið flæði aðeins í eina átt.

Æðahnútar geta myndast þegar bláæðarnar víkka út og æðalokurnar skemmast. Þá verður aukin blóðsöfnun í bláæðum fóta og þar af leiðandi getur bjúgur myndast. Í kjölfarið koma oft þreytuverkir, kláði og æðabólga.
Einkenni æðahnúta koma þó oft ekki fram fyrr en eftir mörg ár.
Hver er orsökin ?
Orsök æðahnúta getur verið margþætt. Sem dæmi má nefna langvarandi kyrrstöður, aukinn kviðarholsþrýstingur sbr. hjá ófrískum konum og einnig er talið að erfðir geti haft mikið að segja.


Undirbúningur fyrir aðgerð:
Lífsmörk (blóðþrýstingur,púls og hiti) mæld. Einnig hæð og þyngd.
Þú þarft að vera fastandi frá kl 24:00 kvöldið fyrir aðgerð.
Farðu í sturtu að morgni aðgerðardags.
Fjarlægja þarf hár af skurðsvæði með háreyðingakremi eða rakstri.
Nauðsynlegt er að fjarlægja skartgripi og naglalakk. Lausar tennur.eru teknar úr á skurðstofu (ef svæfing).
Þú færð ef til vill næringavökva í æð að morgni aðgerðardags.
Þú færð róandi lyf í töfluformi skömmu fyrir aðgerðina í til að þú slakir betur á.
Gott er að vera búin að pissa áður en þú færð róandi þar sem ekki er ráðlagt að fara framúr án aðstoðar.


Eftir aðgerð:
Eftir aðgerð ferð þú á vöknunarherbergi til að jafna þig. Þar er fylgst með blóðþrýstingi, púls, súrefnismettun og almennri líðan þinni.


Verkir og verkjalyf:
Gera má ráð fyrir verkjum í skurðsári eftir aðgerð. Þeir eru verstir fyrst en fara smá dvínandi. Þú færð verkjalyf eftir þörfum. Gott er að taka verkjalyf 1/2 klst. áður en þú ferð fram úr. Við útskrift er gott að eiga verkjalyf sem fást án lyfseðils.


Mataræði og melting:
Svæfing: Þú fastar þar til þú ert vel vaknaður/vöknuð og ógleði ekki til staðar.  Þangað til þarft þú að fá næringu í æð.
Deyfing: Þú mátt drekka og borða.


Hreyfing og hvíld:

Eftir mænudeyfingu mátt þú fara á fætur meðþegar fullur máttur er kominn í fætur.
Best er að tvístíga eða vera á hreyfingu.
Forðastu að standa lengi hreyfingarlaus og krossleggja fætur.
Hafðu stól undir fótum er þú situr.
Hafðu kodda undir fótum er þú liggur.
Forðastu alla áreynslu s.s. rembing, lyfta þungu og líkamsrækt fyrstu dagana á eftir.
Nauðsynlegt er að vera í teygjusokkum í amk. 4 vikur en fara úr þeim yfir nóttina.

 

Saumar:

Saumar eru teknir eftir u.þ.b. 10 daga frá aðgerð.  Þú mátt fara í steypibað þegar þú ert komin(n) vel á ról þ.e.a.s. eftir 3 daga frá aðgerð.

Ef eitthvað er óljóst hikaðu ekki við að leita nánari upplýsinga hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni.
Hafðu samband við vakthafandi lækni í þínu héraði ef eftirfarandi atriði koma upp:
Meiri hiti en 38°C í 3 daga eða lengur.
Blæðing eða vessi úr skurðsári.
Miklir verkir og slappleiki.