Að hjálpa í skyndi

Helga THorbergsÞað er gömul saga og ný að slysin gera ekki boð á undan sér. Það sama á reyndar í mörgum tilvikum líka við um alvarleg veikindi. Hvar og hvenær sem er getum við lent í þeirri stöðu að þörf er á að við leggjum slösuðum eða sjúkum lið. Við getum líka lent hinumegin og þurft á aðstoð að halda. Það er öllum mikilvægt að þekkja til undirstöðuatriða í skyndihjálp. Það er hinum slasaða eða sjúka dýrmætt að fyrstu viðbrögð nærstaddra séu rétt. Það er líka styrkur þeim sem að koma að kunna til verka.

Það að setja plástur á sár, kyssa á „bágtið“, taka utanum þann sem er sorgmæddur eða róa og hugga með orðum og viðmóti telst allt til skyndihjálpar af einhverju tagi. Við höfum sjálfsagt flest veitt skyndihjálp á þeim nótum, byggða á skynsemi okkar og innsæi. Það eru þættir sem alltaf þurfa að vera í farteskinu en til viðbótar er gagnlegt að þekkja undirstöðuatriði skyndihjálpar.

Á gervihnattaöld er aðgengi að upplýsingum og fræðslu um skyndihjálp gott. Rauði kross Íslands fagnaði 90 ára afmæli sínu árið 2014 og gaf þjóðinni af því tilefni það að samtökin lögðu áherslu á skyndihjálparfræðslu. Á vefslóðinni skyndihjalp.is má nálgast fjölbreytt fræðsluefni um skyndihjálp. Ég vek sérstaka athygli á skyndihjálpar appinu sem með einum smelli má hlaða niður í síma eða spjaldtölvu. Þar með er maður kominn með greinargóðar og skýrar leiðbeiningar við hinni ýmsu vá, í vasann eða veskið. Það er gott veganesti í hversdaginn og góður undirbúningur undir skyndihjálparnámskeið.

Við skulum enda þennan pistil á því að hefja fræðslu um grundvallarreglur skyndihjálpar sem alltaf þarf að hafa í huga og fylgja. Þetta eru fjögur skref:

  1. Tryggja öryggi
  2. Meta ástand hins slasaða eða sjúka
  3. Kalla eftir hjálp
  4. Veita skyndihjálp.

Svo er bara að skella sér á námskeið.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir

hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vík