32. ár síðan núverandi húsnæði HSu var tekið í notkun

Í dag, 18. desember eru  nákvæmlega 32. ár síðan formleg afhending fór fram á núverandi byggingu HSu. Það var Sigfús Kristinsson byggingameistari og hans menn sem byggðu húsið. Síðan þá hefur verið byggt við húsið nýjann inngang og þriggja hæða álmu.  Sú viðbygging var tilbúin 2008 og hýsir hjúkrunardeildirnar Foss- og Ljósheima og frá 2010 heilsugæsluna.

 

Áður var Sjúkrahús Suðurlands til húsa við Austurveg,  þar sem nú er rekið farfuglaheimili. Eftir flutninginn í nýja húsið var gamla húsið við Austurveg notað fyrir hjúkrunardeildina Ljósheima, en þá hafði verið skortur á slíkum sérúrræðum fyrir aldraða hér á Selfossi.  Hjúkrunardeildin Ljósheimar var starfrækt þar, allt til 2008, en þá flutti sú starfsemi í núverandi húsnæði.

 

Þess má geta til fróðleiks að fyrstu teikningar af eldri byggingu HSu voru lagðar fram af Húsameistara Ríkisins í okt. 1968 og höfðu þá verið í vinnslu frá okt 1965, eða í 3 ár. Einhverjar breytingar voru síðan gerðar á teikningunum og miklar tafir urðu á því að vinna við byggingu hússins hæfist.  Í lok árs 1972 var loks grafið fyrir húsinu og árið þar á eftir hófust framkvæmdir.  Bygging hússins tók nokkur ár, ýmsar tafir urðu þess valdandi og á byggingatímanum höfðu ýmsar kröfur breyst og var þá farið í að breikka einhver hurðaop og brjóta niður veggi til að stækka sum rými.  Það var svo ekki fyrr en haustið 1978 sem heilsugæslan var tekin í notkun og húsið var ekki formlega afhent fyrr en 18. desember 1981.  Það má því segja að byggingsaga hússins spanni um 20 ár.

 

Nú styttist í að hafist verði handa við viðbyggingu og endurnýjun á elsta hluta hússins.  Áætlað er að byggja þriðju hæðina ofaná gamla húsið, stiga- og lyftuhús við endagafla og ýmsar aðrar breytingar og tilfæringar innanhúss, svo húsið fullnægji nútímakröfum um húsakost fyrir starfsemina.