Föstudagspistill forstjóra

3. maí 2019

Herdís Gunnardóttir, forstjóri HSU

Kæra samstarfsfólk.

Nú fyrr á árinu kynnti heilbrigðisráðherra áform um að byggja upp geðheilsuteymi í heilsugæslunni í samræmi við markmiði í geðheilbrigðisáætlun Alþingis. Ráðherra veitti 58 millj. kr. til verkefnisins í heibrigðisumdæmi Suðurlands fyrir árið 2019 og er undirbúningur að stofnun geðheilsuteymis á HSU nú hafinn.  Sett hefur verið fram áætlun um uppbyggingu teymisins. Vel hefur verið farið yfir hvaða geðheilbrigðisþjónusta er nú veitt innan HSU og hvernig má forgangsraða verkefnum hjá geðheilsuteyminu sem mun þjónusta íbúa á öllum starfstöðvum HSU í umdæminu. Sú þjónusta sem er í boði nú er einkum sálfræðiþjónusta fyrir börn og fjölskyldur þeirra, geðheilbrigðisþjónusta fyrir verðandi mæður og þjónusta og meðferð heimilislækna til fullorðinna með sálrænan og geðrænan vanda.  Það verður því kærkomið að geta hafist handa við að byggja upp enn frekar geðheilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna, enda þörfin mikil.  Nú í apríl komu saman yfir 20 heilbrigðisstarfsmenn á HSU sem koma að geðheilbrigðisþjónustu innan stofnunarinnar og fóru yfir hugmyndir og áætlanir um hvernig má byggja upp geðheilsuteymið.  Næsta skref er að ráða til HSU teymisstjóra geðheilsuteymsins og hefur sú staða verið auglýst.  Hlutverk teymisstjórans er fyrst og fremst að stýra undirbúningsvinnu og þróun teymisins og halda utan um skipulag, stjórnun og innleiðingu verkefna hjá geðheilsuteyminu, ásamt því að taka þátt í klínískri vinnu.

Í desember s.l. hóf sérfræðingur í krabbameinslækningum störf við HSU.  Ánægjulegt er að sjá að okkur hefur tekist að auka þjónustu við krabbameinssjúklinga í heimabyggð og hefur komum á göngudeild á Selfossi farið fjölgandi jafnt og þétt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Krabbameinssjúklingar geta nú leitað til HSU og fengið viðtal við krabbameinslækni sem tekur ákvörðun í framahaldinu um frekari úrræði.  Þeim sjúklingum sem hægt er að sinna á HSU er boðið upp á meðferð í samvinnu við lækni og hjúkrunarfræðing, eftir þörfum og eðli sjúkdóms hjá hverjum og einum.  Boðið er upp á lyfjameðferð, ráðgjöf, eftirlit, einkennameðferð og líknandi meðferð fyrir þá sem þess þurfa. Góð samvinna er milli HSU og Landspítala um meðferð krabbameinssjúklinga.  Sérfæðilæknir HSU mun nú á næstu vikum hefja undirbúning að áframhaldandi þróun þjónustu fyrir krabbameinsveika sjúklinga í Vestmannaeyjum.

Það eru því næg verkefni alls staðar í gangi hjá okkur á HSU. Á hverjum tíma veit ég að starfsmenn HSU leggja sig allir fram um að veita faglega og örugga þjónustu til íbúa Suðurlands með virðingu að leiðarljósi í öllum samskiptum.

 

Góða helgi og góða vakt.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.