Málþing HSU um nýjungar í sjúkraskrá

Í dag, 26. mars 2019, var haldið málþing hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) og var tilgangurinn að kynna nýjungar í þróun sjúkraskrár og skapa umræður um hagnýtingu þeirra í þágu þjónustþega og starfsmanna. Málþingið sóttu alls um 40 heilbrigðisstarfsmenn hjá HSU sem haldið var á Selfossi en fjölmargir fylgdust einnig með á starfstöðvum HSU í fjarfundi.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU opnaði málþingið og fjallaði um mikilvægi skráningar heilbrigðisupplýsinga og þátttöku notenda heilbrigðisþjónustunnar í aðgengi að eigin heilsufarsupplýsingum.  Mikið safn er til af gögnum og upplýsingum sem nýtast á margvíslegan hátt, m.a. fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að veita örugga og samfellda þjónustu, til gæðaþróunar og gæðaeftilits og sem upplýsingaveita fyrir sjúklinga og almenning.  Eins eru töluleg gögn og aðrar upplýsingar mikilvægir mælikvarðar á árangur í umbótum í heilbrigðisþjónustu og geta verið vegvísir stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir til að bæta heilsu og aðgengi að margs konar heilbrigðisþjónustu. Forstjóri HSU kynnti einnig stuttlega stefnu Embættis Landlæknis um rafræna sjúkraskrá og heilbrigðisnet.

 

Kynning var frá Miðstöð rafrænnar sjúkraskrár Embættis landlæknis þar sem Ingi Steinar Ingason teymisstjóri rafrænnar sjúkraskrár, Ragnheiður Arnardóttir, verkefnisstjóri og Sunna Brá Stefánsdóttir kynntu m.a. nýtt miðlægt lyfjakort, tilvísanagátt, atvikaskráningarkerfi sem er í þróun og nýjungar í Heilsuveru.  Einnig kynnti Guðjón Vilhjhjálmsson forstöðumaður heibrigðislausna hjá Origo nýtt skjáborð fyrir sjúkradeildir og bráðamóttöku, þróun á lyfjafyrirmælakerfi og lyfjaskráningarkerfi og mörg önnur spennandi verkefni, s.s. fyrir meðferðarskráningu í hjúkrun og heimahjúkrun.

 

Mjög góðar og gagnlegar umræður fóru fram á málþinginu og þökkum við öllum þátttakendum fyrir þeirra framlag og áhuga á verkefnunum.  Góður hugur er meðal starfsmanna HSU að taka þátt í að vera prufustofnun fyrir innleiðingu nýjunga og hefur það verkefni farið vel af stað í samvinnu allra aðila.

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.