Kvenfélag Grímsneshrepps gefur til HSU

Konur úr Kvenfélagi Grímsneshrepps, ásamt forstjóra HSU, framkvæmdastjóra hjúkrunar, sjúkraþjálfara og hjúkrunarfræðing af Göngudeild.

Þann 18. janúar sl. kom hópur kvenfélagskvenna úr Grímsnesi í heimsókn á HSU Selfossi.  Tilefni heimsóknarinnar var að færa HSU formlega að gjöf rúmhjól, sem félagið færði stofnuninni í lok síðasta árs.  Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ekki haft áður til umráða slíkt hjálpartæki, svo þetta er einstaklega kærkomin gjöf. 

 

Hjólið er af gerðinni Motomed letto2 og er sérhannað til að renna að meðferðarstól/bekk eða rúmi og undir og yfir það svo sá sem er rúmliggjandi geti hjólað án þess að fara úr stól eða rúmi.  Sérstök ánægja er með það á Göngudeild HSU þar sem hjólið er notað þrisvar í viku, en þar er það notað af einstaklingum sem koma í blóðskilun.  Hreyfingin við að hjóla um leið og blóðskilun er í gangi eykur blóðflæðið og þar með árangur blóðskilunar. Hjólið skiptir einstaklinga sem kom í blóðskilun því miklu máli.  Með einfaldri breytingu er hægt að skipta um yfir í handhjólun í stað þess að nota fætur.  Heildarverðmæti tækisins er 1.466.758 kr.

 

Kvenfélag Grímsneshrepps er eitt af elstu kvenfélögum landsins og fagnar á þessu ári, þann 24. apríl 100 ára afmæli.  Í tilefni afmælisins gefur kvenfélagið út sögu félagsins þessi 100 ár.

 

Heilbrigðisstofnun Suðurlands óskar Kvenfélagi Grímsneshrepps alls hins besta í tilefni árafjöldans og þakkar um leið kærlega fyrir þessa veglegu og glæsilegu gjöf sem mun nýtast vel þeim sem þurfa og er sérlega góð viðbót í tækjabúnað stofnunarinnar.