Kvenfélög gefa til HSU

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þann 25. október 2018 fór fram formleg gjafaafhending á Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi.  Hópur kvenna úr nokkrum kvenfélögum færðu Heilsugæslustöðinni á Selfossi lífsmarkamæli að gjöf.  Tækið er færanlegt á hjólastandi, svo hægt er að fara með það milli herbergja, tækið mælir blóðþrýsting, púls, hita og súrefnismettun. Nokkrar stærðir af hulsum fylgdu einnig með, svo hægt er að mæla ung börn og fullorðið fólk með misstóra handleggi.  Verðmæti gjafarinnar er 473.211 kr.  Tækið kemur sér einstaklega vel og er kærkomin viðbót í tækjabúnað heilsugæslunnar. 

 

Það voru 12 kvenfélög sem stóðu að gjöfinni sameiginlega og þau eru: Kvenfélagið Bergþóra Ölfusi, Kvenfélag Biskupstungna, Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps, Kvenfélag Gnúpverjahrepps, Kvenfélag Hrunamannahrepps, Kvenfélag Hveragerðis, Kvenfélag Hraungerðishrepps, Kvenfélag Laugdæla, Kvenfélag Skeiðahrepps, Kvenfélag Stokkseyrar, Kvenfélag Þorlákshafnar og Kvenfélag Villingaholtshrepps.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur í gegnum tíðina notið einstakrar gjafmildar kvenfélaga á Suðurlandi og verður það seint fullþakkað, enda væri tækjakostur stofnunarinnar rýrari ef ekki nyti þessarar einstöku eljusemi og góðvild kvenna innan félaganna.

 

Næstkomandi laugardag, 3. nóvember, standa kvenfélögin í Flóahreppi fyrir sameiginlegum basar í Félagsheimilinu Þingborg og mun allur ágóði renna til áhaldakaupa í sjúkrabíla HSU. Til sölu verður handverk og kökur.  Hvetjum alla til að mæta og styrkja gott málefni.