Forseti Íslands færir viðbragðsaðilum á Suðurlandi þakkir fyrir samtaka aðgerðir vegna hópslyss í Eldhrauni

Í gærkveldi þann 4. janúar 2018 tók hópur starfsmanna og stjórnenda á HSU þátt í rýnifundi vegna björgunaraðgerða hópslyssins í Eldhrauni á þriðja dag jóla. Fundurinn var haldinn í félagsheimilinu á Kirkjubæjarklaustri og var húsfyllir á fundinum.  Tilgangur fundarins var að ná saman fulltrúum allra hlutaðeigandi viðbragðsaðila á Suðurlandi, ásamt samhæfingarstöð Almannavarna, Landhelgisgæslu og Landspítala til að draga lærdóm af aðgerðum og samstarfi vegna hópslyssins.

 

Farið var yfir útkall fyrstu aðila, aðgerðir, fyrstu viðbrögð á slysstað, björgun slasaðra og störf aðgerðarstjórnar.  Fulltrúar allra aðila gáfu stutt yfirlit yfir aðkomu sína að björguninni og þá þætti sem að mættu betur fara. Fundarmenn voru þó á einu máli um að allir hafi lagst á eitt um að aðgerðin heppnaðist eins vel og hugsast gat.  Það kom í ljós að viðbragðsáætlun á Suðurlandi, hópslysaæfingar og fagleg færni þátttakanda skilaði sér í árangursríkri björgun.  Aðilar hafa hver um sig haldið viðrunarfundi í minni hópum og rýnifundi.   Þar hefur ýmislegt komið upp sem má lagfæra bæði sem snertir hvern aðila og samskipti okkar á milli við björgunina. Unnið verður með þessi atriði sem flest má laga með einföldum hætti til að gera okkur enn betur í stakk búin að takast á við næsta slys.  En í heildina lánaðist aðgerðin mjög vel sem skiptir öllu máli fyrir þolendur.

 

Það er mat framkvæmdastjórnar HSU að aðgerðin hafi í heild sinni gengið mjög vel. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafði aðkomu að fyrstu aðgerðum á vettvangi, vettvangs- og aðhlynningarstjórn, ásamt því að senda greiningarteymi á slysstað og manna viðbragðsstjórn HSU og aðgerðastjórn almannavarna. Á HSU var tekið á móti 33 minna slösuðum til meðferðar og skoðunar á Selfossi eftir slysið í Eldhrauni og okkar fólk stóð sig eins og hetjur í framlínunni við að koma fólki til bjargar ásamt samstarfsaðilum og öðrum viðbragðsaðilum á Suðurlandi.

 

Ljóst er að mikið álag var á þeim aðilum sem komu fyrstir á vettvang og það er ekki sjálfgefið að standa sig vel undir slíku álagi og fyrir það bera að þakka sérstaklega. Aðstæður sem starfsfólk HSU, og aðrir viðbragðsaðilar á Suðurlandi, stóð frammi fyrir á vettvangi eiga sér fáar hliðstæður. Að koma að slíku stórslysi og koma röð og reglu á vettvang er meiriháttar afrek. Allir þeir sem ekki voru fluttir á LSH komu til skoðunar á HSU enda áríðandi að allir fengju skoðun, eins og svo kom á daginn að reyndist nauðsynlegt. Stór hópur heilbrigðisstarfsmanna breytti opnum rýmum í stóra slysamóttöku á HSU á Selfossi.  Sú aðstaða var mönnuð og tilbúin til móttöku sjúklinga á innan við klukkustund frá því að boðun barst. Vegna fjarlægðar frá slysstað komu fyrstu sjúklingarnir ekki til skoðunar á HSU fyrr en um 4 klst. eftir að atvikið átti sér stað. Þar beið starfsfólk bráðamóttöku og sjúkrahúss á Selfossi tilbúið og tók við 33 sjúklingum til skoðunar á 2 klst. Það er þrekvirki. 

 

Það var afar ánægjulegt að í gær kom símtal frá skrifstofu Forseta Íslands til HSU.  Þar kom Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á framfæri þakklæti til viðbragðsaðila á Suðurlandi fyrir framúrskarandi samstarf og viðbrögð á vettvangi slyssins.  Hann bað fyrir kveðjur til allra á fundinum og tók fram hve stoltur hann væri af samvinnu allra aðila við björgun slasaðra.  Kveðjunni frá forsetanum var afar vel tekið af fundarmönnum, enda mikils vert að finna slíkan hlýhug og þakklæti.  Það er okkur öllum hvatning til áframhaldandi góðra verka.

 

Fyrir hönd okkar á HSU vil ég þakka okkar fólki og samstarfsaðilum fyrir fagmennsku og framúrskarandi kjark, elju, snerpu og úthald við erfiðar aðstæður.  Þetta var virkilega vel gert!

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.