Þorláksmessupistill forstjóra

23. desember 2017.

 

Kæru samstarfsmenn.

 

Í dag er Þorláksmessa og senn höldum við jól. Þessi árstími tengist í mínum huga kertaljósum og birtunni sem lýsir upp húmið. Nú þegar jólin ganga í garð þá er liðinn sá tími þar sem dagurinn styttist og dagsbirtan tekur aftur yfirhöndina. Skammdegið og dægursveiflurnar leggjast þó mis vel í fólk. Við skulum því hlúa vel hvert að öðru og færa gleði og gjafir til þeirra sem mest þurfa á því að halda þessi jól.

 

Nú undir lok þessa árs hjá okkur á HSU vil ég rifja upp að og minna á að aldrei höfum við þurft að sinna meiri verkefnum og naumt er gefið til að standa undir kröfum um sívaxandi þjónustu. Það sem ég get þó sagt er að við stöndum mjög vel undir þeim faglegu kröfum sem til okkar eru gerðar.  Það hefur ekki farið fram hjá neinum að við höfum margoft fært rök fyrir því að fjárveitingar til Heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni er langt undir raunverulegri þörf og reiknilíkön í engum takti við raunaðstæður. Enn ríkir óvissa um fjárframlög til ársins 2018 og mun ég kynna fyrir ykkur stöðuna um leið og hún mun liggja fyrir.  Ég trúi og vona að rök okkar hljóti áheyrn og hljómgrunn.

 

Því langar mig að minnast á það sem hefur áunnist síðast liðna daga varðandi rekstrarfé til okkar. Forstjórar Heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni áttu fund með fjárlaganefnd nú í vikunni og gerðu grein fyrir því með efnislegum rökum að það vantaði alls um 1,2 milljarða kr. til reksturs og mönnunar fyrir heilsugæslu og sjúkrahús á landsbyggðinni. Það sem er hins vegar nýtt að frétta af viðbótum við frumvarpið er tillaga sem komin er frá meirihluta fjárlaganefndar. Hún var lögð fyrir 2. umræðu í þinginu í gærkveldi og var samþykkt.  Þar var lagt til 200 millj. kr. viðbót fyrir öll umdæmin í heilsugæslu, 200 millj. kr. til sjúkrahúsa á landsbyggðinni og áður var búið að setja inn 100 millj. kr. vegna sjúkraflutninga og 200 millj. kr. viðbót vegna tækjakaup.  Viðbótin sem komin er inn í fjárlög ásamt breytingatillögunum sem samþykktar voru nú í gær nema því að mér sýnist 700 millj. kr. fyrir öll heilbrigðisumdæmin, þ.e.a.s. HSS, HVE, HVest, HSN, HSA og HSU.  Ráðuneytinu verður síðan falið að ráðstafa þessari viðbót í samræmi við fjármálaáætlun. En ríkir því óvissa um hvað mun koma í hlut HSU. Við munum leggja ríka áherslu á að þessum viðbótum verði ráðstafað í samráði við okkur.  Mér sýnist einnig að farið sé fram á 50 millj. kr. millifærslu af sjúkrasviði hjá okkur yfir á heilsugæslusvið til að bæta fyrir fjárþörf í heimahjúkrun og sjúkraflutninga.  Ég mun boða til kynningarfundar með ykkur um leið og niðurstaða fjárveitinga liggur fyrir í upphafi nýs árs. 

 

Ég átti þess kost fyrr í þessum mánuði að eiga fund með nýjum heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttir og óskaði henni farsældar í nýju embætti.  Hún hafði kynnt sér vel samantekt mína á erindum okkar og þakkaði hnitmiðuð og vel rökstudd erindi vegna viðfangsefna okkar og áskoranna í rekstri á þessu og næsta ári. Það er því ánægjulegt að segja ykkur frá því að heilbrigðisráðherra tilkynnti mér í fyrradag að hún hefur tekið undir rök okkar varðandi nauðsynlega viðbótarmönnun á þessu ári, í sjúkraflutningum og á BMT og fengum við 60 millj. kr. í viðbótarframlag fyrir árið 2017 upp í útlagðan kostnað til að manna grunnþjónustu.  Það hefur orðið til þess að við munum trúlega ná að halda rekstri þessa árs í jafnvægi. HSU fer því ekki í jólaköttinn í ár. Við fögnum því að fá áheyrn hjá nýjum ráðherra.

 

Við þurfum að vera baráttuglöð og ég hvet ykkur til að koma alls staðar á framfæri hvað við erum að afreka í þjónustu við sjúklinga á hverjum degi.  Það er ekki lítið. Við erum að skila frábæru faglegu starfi oft við þröngan kost.  Við munum áfram gera okkar besta við að byggja upp skilvirka og góða þjónustu þó það gerist því miður hægar en við höfum þolinmæði fyrir. Því er efst í huga mér í dag þakklæti til ykkar allra fyrir þrautseigju, úthald og fagmennsku.

 

 

Ég er stolt af því að vinna með ykkur og vil vinna fyrir okkur öll.

Gleðilega jólahátíð til ykkar allra!

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.