Vel heppnuð síðsumarsferð Foss- og Ljósheima

Þann 24. ágúst s.l. var árleg síðsumarferð Foss- og Ljósheima og tóku tæplega 60 manns þátt, heimilismenn, aðstandendur og starfsmenn.

Að þessu sinni var farið að Friðheimum í Reykholti. Við komuna að Friðarstöðum var kynning á starfseminni þar. Eftir fróðlegan fyrirlestur var sest til borðs þar sem í boði voru veitingar úr  framleiðslu staðarins, tómatsúpa og tilheyrandi. Að loknum kaffisopa var farið á reiðvöll Friðheima en þar fór fram þjóðleg hestasýning sem féll í góðan jarðveg, enda margir hestamenn á Foss- og Ljósheimum. Að sýningu lokinni var öllum boðið í hesthúsið þar sem fólk gat rifjað upp nána snertingu við hestana.

Á heimleiðinni var farin „lengri leiðin“ því næg orka var eftir fyrir rútusöng og gamansögur.

Það er mál manna að ferðin hafi tekist einstaklega vel. Kærar þakkir til Vinafélags Foss- og Ljósheima sem bauð í ferðina, einnig Sigríðar Harðardóttur og Sigrúnar Óskarsdóttur sem höfðu veg og vanda af skipulagningu hennar.