Föstudagspistill forstjóra

Herdis-Gunnarsdottir

28.október 2016

 

Kæra samtarfsfólk.

 

Þessi vika á HSU hefur verið viðburðarík en á sama tíma ríkir nú í vikulokin óvissa og eftirvænting vegna komandi alþingiskosninga.  Oddvitar og fulltrúar framboða stjórnmálaflokka komu í heimsókn nú um miðja vikuna og áttu góðan samtalsfund með framkvæmdastjórn.  Nú í dag og í gær komu saman klínískir stjórnendur til fræðslu um hagnýtingu upplýsingatækni á heilbrigðissviði og eins til að vinna að stefnumótun fyrir starfsemi og þjónustu HSU. Við fengum til okkar afar reynda fyrirlesara sem miðluðu til okkar mikilli þekkingu og hvatningu til góðra verka á sviði skráningar. Þetta voru afar gagnlegir og gjöfulir dagar og margar góðar hugmyndir voru ræddar og festar á blað. 

Það sem eftir situr hjá mér eftir þessar heimsóknir vikunnar er þakklæti og ánægja með að fá að starfa með svo góðum hópi fólks sem raun ber vitni. Ég er reyndar ávallt á þeirri skoðun.  Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega nú er sú að allir okkar gestir áttu það sammerkt að hrósa starfsfólki HSU og  framlagi okkar á sviði heilbrigðisþjónustu.

Þið eigið því öll hlutdeild í þeirri rós sem við fengum í hnappagatið nú í vikunni.

Eftir fundinn með frambjóðendum kom í ljós að þeim þótti til þess koma að hér væri sterk sýn fyrir þróun heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi og hvernig þurfi að festa grunnþjónustuna enn betur í sessi.  Frá Landspítala fengum við sérstakar þakkir fyrir að bregðast ávallt vel við þegar til okkar væri leitað og þá sér í lagi varðandi hnökralaust samstarf í kringum alvarleg rútuslys sem urðu nú í vikunni í og við okkar umdæmi. Frá Embætti Landlæknis fengum við tvöfalt hrós fyrir að standa okkur best allra við innleiðingu á Veru sem er heilbrigðis- og samskiptagátt fyrir íbúa.  Jafnframt eru sterkar vísbendingar um að við eigum hlutdeild í því að góð og fagleg heilbrigðisþjónusta á Suðulandi sé að skila góðumútkomum fyrir heilsu  íbúa Suðurlands, miðað við landið í heild, þegar við rýnum í nýlega útgefna lýðheilsuvísa á Íslandi. 

Vel gert öll sömun!

Við skulum því halda ótrauð áfram því okkar bíða fjölmörg tækifæri í áframhaldandi faglegri þróun þjónustunnar.  Ég hlakka því til að kynna fyrir ykkur niðurstöður úr stefnumótun stjórnenda og bíð ykkur við fyrsta hentugleika að gefa ykkar álit og umsögn.  Þrátt fyrir erfiða rekstrarstöðu þá er það viðvarandi verkefni að halda áfram faglegri uppbyggingu og stilla saman kompásinn jafnt í rekstri sem og í þróun þjónustunnar.

Góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.