Föstudagspistill forstjóra

9. september

Herdis_MBA

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljóst er að áfram mun verða mjög þröngt um rekstrahorfur  í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Samhliða vaxandi álagi á starfsfólk, með sívaxandi fjölda verkefna í bráða- og utanspítalaþjónustu á HSU eru fjárframlög til stofnunarinnar enn um 8% undir því sem þau voru að raunvirði fyrir hrun. Núverandi verkefni hjá HSU eru því enn undirfjármögnuð. Í samvinnu við ráðuneyti hefur hins vegar fengist framlag til að greiða niður eldri skuldir fyrrverandi stofnunar HSu sem HSU tók yfir en með því eykst skuld HSU gagnvart hinu opinbera á efnahagsreikningi stofnunarinnar.  Í vor og sumar hefur verið leitað er allra leiða, í samvinnu við hagsmunaðila, til að sinna grunnskyldum við veitta þjónustu á HSU og tryggja þannig íbúum og ferðafólki örugga og góða þjónustu. Það bera því að ítreka þakklæti til alls starfsfólks HSU sem á heiður skilið fyrir eljusemi og fagmennsku við oft á tíðum krefjandi aðstæður.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í rekstri var ákveðið að ráðast í kaup á nýju röntgentæki á Selfossi. Áætlaður kostnaður við tækið með uppsetningu er tæplega 50 millj. kr. Framkvæmdastjórn ákvað að veita fé úr gjafasjóð HSU til kaupanna, en engin sérstök fjárframlög frá hinu opinbera hafa verið lögð fram til að endurnýja eldra tæki sem var orðið úrelt og nánast ónýtt eftir 20 ára notkun.  Enn þarf því HSU að reiða sig á velvilja og framlög velunnara stofnunarinnar og er það algjörlega ómetanlegt að fá slíkan stuðning.  Á fjárlögum ársins 2015 var gert ráð fyrir 7,6 millj. kr. til eignarkaupa hjá HSU í heild sinni sem dugar á engan hátt til að viðhalda nauðsynlegum tækjum til að sinna grunn heilbrigðiþjónustu í svo stóru umdæmi. Til að geta endurnýjað lækningatæki á HSU á þessu ári þarf um 90 millj. kr. og eru  þá ótalin kaup á nýjum tækjum. 

Það er fagnaðarefni  að nú í byrjun september hefur  nýtt röntgentæki á Selfossi verið tekið í notkun. Það mun tryggja betri gæði myndgreiningarannsókna, auðvelda úrlestur, bæta aðkomu hreyfihamlaðra sjúklinga og bæta til muna vinnuaðstæður geislafræðinga.  Þess bera að geta að á ári hverju eru framkvæmdar um 5000 röntgenmyndatökur á Selfossi.

 

Með góðri kveðju til ykkar allra og ósk um góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.