Kvenfélag Selfoss gefur heimilisfólki hjúkrunardeilda HSU dagbókina Jóru

Deildarstjóri Ljósheima veitir bókunum viðtöku.Deildarstjóri Fossheima veitir bókunum viðtöku.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kvenfélag Selfoss gaf heimilisfólki á Fossheimum og Ljósheimum dagbókina Jóru til eignar, eina bók á hvern heimilismann. Hugmyndin er að hægt væri að nota bókina sem samskipta- og upplýsingabók fyrir heimilismenn deildana. Deildarstjórar Ljósheima og Fossheima ásamt Esther Óskarsdóttur framkvæmdastjóra fjármála hjá HSU, veittu bókunum viðtöku þegar þær Aðalheiður Guðmundsdóttir formaður Kvenfélags Selfoss og Guðbjörg Gestsdóttir stjórnarkona komu færandi hendi.

 

Jóra – Dagbókin mín 2015, er tuttugasta og þriðja bókin sem Kvenfélag Selfoss gefur út á jafn mörgum árum og hefur hún átt ágætum vinsældum að fagna frá upphafi. Útgáfa dagbókarinnar er aðalfjáröflun Kvenfélags Selfoss. Félagið hefur frá upphafi styrkt margs konar verkefni í samfélaginu s.s. á sviði líknar – og menningarmála.

 

Efni bókarinnar er af ýmsu tagi: Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri skrifar skemmtilegan pistil um dagbókarskrif. Einnig birtast í bókinni nokkur vel valin orð til umhugsunar, gátur og léttar sögur. Í Jóru 2015 er stuttur pistill um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi sem minnst verður með margvíslegum hætti á þessu ári. Loks má nefna skemmtilegar vísnagátur sem Þórhallur Hróðmarsson gaf leyfi til að birta í bókinni, en vonandi hafa einhverjir gaman af að glíma við þær.

 

Sem sagt fjölbreytt efni í bókinni sem gefendur vona að heimilisfólk og aðstandendur þeirra hafi gagn og gaman af.