SSK og Kvenfélag Selfoss gefa HSu til tækjakaupa

 

Samband sunnlenskra kvenna ásamt stjórn HSu

Forsvarsmenn sambands sunnlenskra kvenna ásamt yfirljósmóður og stjórn HSu

Samband sunnlenskra kvenna og Kvenfélag Selfoss eru miklir velunnarar stofnunarinnar og hafa með gjöfum sínum unnið ómetanlegt hjálparstarf við tækjarekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.  Þeim var á dögunum boðið til stofnunarinnar og þakkað sérstaklega fyrir.

Samband sunnlenskra kvenna gaf nýverið fæðingadeildinni á HSu tvö tæki sem nema hjartslátt hjá fóstrum og einnig gulumæli, til að mæla gulu í nýburum.  Tækin koma sér afar vel og koma í stað eldri tækja sem gengin eru úr sér og mikil þörf er fyrir að séu til á deildinni.  Einnig gaf SSK fæðingadeildinni sjónvarp með veggfestingu, sem nýtist nýbökuðum foreldum sem dvelja á fæðingadeildinni.   SSK gaf einnig hjúkrunardeildunum á HSu, sælureit utandyra.  Sælureiturinn er staðsettur sunnanundir byggingu HSu.  Þar verður skjólgóð girðing, bekkir, blóm og tré, svo íbúar hjúkrunardeildanna geti gengið út og setið í skjóli og notið smá útiveru.  Heildarverðmæti gjafanna frá SSK er 2.388.235 kr.

Kvenfélag Selfoss gaf stofnunni 500.000 uppí kaup á blöðruskanna fyrir Bráða- og slysadeild HSu á Selfossi.  Skanninn auðveldar skoðun á þvagblöðru og minnkar inngrip með tilheyrandi óþægindum og sýkingarhættu fyrir skjólstæðinga.